top of page
Search

Ossom.. Hugmyndin verður að veruleika

Mig langar aðeins að segja frá hvað hefur drifið mig áfram að opna fyrirtæki sem þetta. Þegar ég var að grúska í allskonar efni og fróðleik sem mig langaði til að setja inná heimasíðuna rakst ég á eldgamlan þátt úr "Ísland í dag" frá árinu 2011 (sjá má þáttinn hér neðst á síðunni). Ég var nú nánast búin að gleyma þessu en þátturinn rifjaði margt upp sem mér finnst vera mikilvægur grunnur að þessu nýja fyrirtæki.


Árið 2008 greindist ég með bráðahvítblæði og þurfti að fara í lyfjameðferðir og mergskiptiaðgerð í kjölfarið. Þegar ég horfði á þáttinn, fannst mér þetta vera komið svo langt frá mér en á sama tíma svo stutt síðan. Á þessum tímapunkti leið mér mjög illa, móðir mín hafði látist tveimur árum áður úr briskrabbameini. Við vorum semsagt að glíma við krabbamein á sama tíma, við mæðgur. Ég var líka að glíma við allskyns aukaverkanir eftir meðferðina. Ein af aukaverkununum var hárið á mér sem virtist ekki vera að koma til baka eins og það var áður. Ég var fyrir meðferðina með mikið sítt og þykkt hár. Þetta hefur reynst mér ákaflega erfitt. Ég byrjaði að kynna mér allskyns lausnir til að hylja hársvörðin því hárið á mér var svo gisið. Ég hef síðan notað allskyns duft og litasprey í hársvörðin. Svo fór ég að leika mér með hártoppa sem ég hef sett inn á milli í hárið svo það virðist þykkara. Nú árið 2020 hefur hárið á mér ekki orðið mikið þykkara og er enn mjög veikbyggt. Ég nota hártoppa í dag og líður hundrað sinnum betur með mig. Þetta hefur styrkt sjálfsmyndina mikið. Ég hef kynnt mér allt um hárkollur, hártoppa, hárlengingar og tel mig kunna öll trixin í bókinni.


Ég stofnaði fyrirtæki 2013 þar sem mig langaði að hjálpa konum í minni stöðu og vera til staðar fyrir þær sem voru að ganga í gegnum lyfjameðferð og þurftu að missa hárið vegna þess. Fyrir mér var það mjög erfitt og ég gat ekki hugsað mér að vera sköllótt á almannafæri. Ég veit að það eru margar konur sem líður þannig. Hárið er svo stór partur af sjálfsmyndinni okkar. Á þessum tíma fór ég tvisvar sinnum til London og tók námskeið og kynnti mér allt um hárkollur, lærði að klippa þær til og hvernig maður meðhöndlar þær. Það skiptir mjög miklu máli að geta klippt hárkolluna ef þess þarf og það er mjög mikilvægt að það sé gert rétt því það verður ekki aftur snúið.

Því miður gerði ég sömu mistökin og margir sem glíma við erfiða sjúkdóma. Ég hélt að ég gæti bara dregið strik í sandinn og sagt "Nú er þetta búið og ég er orðin heilbrigð aftur" og unnið eins og ég hafði gert áður (ég var sennilega aðeins of bjartsýn og hélt að ég gæti stundað 110% vinnu). Því miður var ekki svo og álagið varð of mikið og þurfti ég því að loka fyrirtækinu vegna heilsubrests og orkuleysis. Ég vann um tíma hjá Hár og Heilsu sem einnig voru að bjóða upp á hárkolluþjónustu en ákvað svo að hætta alveg og einbeita mér að því að ná eins góðum bata og í boði væri.


Þetta málefni hefur samt verið mikil ástríða hjá mér og er ég búin að vera með þá hugmynd í maganum lengi að veita þessa þjónustu aftur en var pínu brennd af fyrir tilraun og var því ekki tilbúin að gera þetta ein. Ég sé á hverjum degi konur sem ég gæti aðstoðað. Konur sem eru með mikla hárþynningu, af einni eða annarri ástæðu. Það geta verið svo margt sem gerist í líkamanum sem veldur hárvandamálum. Hormónabreytingar, sjálfsónæmissjúkdómar, lyfjameðferðir, stress eða bara erfðir sem valda því að hárið verður veikbyggt og gisið. Þessar konur vita jafnvel ekki hvað er í boði til að hjálpa þeim og því langar mig að breyta.


Það var svo núna síðastliðið sumar að ég og vinkona mín Solla fórum að ræða saman. Það var í kjölfarið af því að náinn ættingi hennar greindist með krabbamein og þurfti á hárkollu að halda.

Sólveig er mjög hæfileikarík, svo ekki sé meira sagt. Hún er förðunarfræðingur og sérfræðingur í varanlegri förðun ásamt því að hafa tekið hluta af hársnyrtináminu. Hún hefur unnið í leikhúsum, sminka í sjónvarpinu í mörg ár og hefur því góða innsýn í hárkollurnar. Hún hefur farðað fyrir flesta af stærstu tónleikum á Íslandi. Solla rak um tíma sinn eigin förðunarskóla og hefur mikla þekkingu og menntun á þessu sviði.

Eftir smá spjall ákváðum við að kýla á þetta og höfum verið í undirbúningi undanfarna mánuði með góðri hjálp eiginmanna okkar.

Nú er þetta orðið að raunveruleika og OSSOM ÚTLIT er staðreynd. Vona svo sannarlega að við eigum eftir að geta aðstoðað sem flesta í framtíðinni.


Recent Posts

See All
bottom of page